„Fast að heimsendi“ - a podcast by RÚV

from 2020-03-12T10:50

:: ::

Íslendingar minnast haustsins 1918 fyrir margar sakir. Hver stóratburðurinn rak annan; Kötlugos, farsótt og fullveldi og úti í heimi liðu svo síðustu dagar heimsstyrjaldar. Þessir atburðir voru eins og skuggi yfir því þegar Íslendingar tóku stórt skref í sjálfstæðisbaráttu sinni. Gömlum manni varð að orði að aðeins hefði vantað halastjörnu til þess að komið væri fast að heimsendi. Íslendingar minnast haustsins 1918 fyrir margar sakir. Stórmerkilegir atburðir áttu sér stað sem mótuðu þjóðina varanlega og framvinda þeirra lyginni líkast. 12. október rumskaði Katla eftir nokkurra áratuga blund og gosið stóð yfir í þrjár vikur. Um viku eftir að Katla gaus barst skæð farsótt til landsins með skipum og fékk hún viðurnefnið „spánska veikin“. Hátt í 500 manns létu lífið og meira en tveir þriðju Reykvíkinga voru rúmliggjandi þegar verst lét. Úti í heimi liðu svo síðustu dagar heimsstyrjaldar sem þá hafði dregið tugi milljóna til dauða. Þessir atburðir voru eins og skuggi yfir því þegar Íslendingar tóku stórt skref í sjálfstæðisbaráttu sinni. Sambandslögin sem voru undirrituð síðsumars 1918 voru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sama dag og spánska veikin er talin hafa borist til landsins. Það er því erfitt að ímynda sér að það hafi verið einróma fögnuður þá daga sem Ísland varð fullvalda. Gömlum manni varð að orði að aðeins hefði vantað halastjörnu til þess að komið væri fast að heimsendi. Í þættinum er dregin fram það drungalega andrúmsloft sem lá yfir Íslandi haustvikurnar 1918. Sagt verður betur frá Kötlugosinu og spánsku veikinni auk þess sem flett verður í skáldsögu Gunnars Gunnarssonar, Sælir eru einfaldir, sem innblásin er af þessum atburðum. Hörmungar og heimsendaótti verða í forgrunni í bland við bókmenntir, fullveldi og sjálfsmynd þjóðar. Rætt verður við þau Guðrúnu Larsen, jarðfræðing, Jón Yngva Jóhannsson, lektor við Háskóla Íslands og Magnús Gottfreðsson, lækni. Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

Further episodes of Fríhöfnin

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV