Guð-spjall, 16. þáttur: Skuldafangelsi eða fyrirgefning - er það einhver spurning? - a podcast by Steinunn A Björnsdóttir

from 2020-11-05T22:24:01

:: ::

Í þessum þætti er vitnað í Aristóteles, Ágústínus (vafasöm fullyrðing?) og Guiliani, talað um trú, rök og tilfinningar og töluna sjö og sjö sinnum sjö. Er mikið mál að fyrirgefa sjö sinnum? Gefa enn einn séns?


Textarnir eru valdir úr textum næsta sunnudags sem er bæði Kristniboðsdagurinn og 22 su. e. þrenn. Þessir voru aðallega til umfjöllunar: 


Pistill: Róm 10.8-17

Hvað segir það þá? „Nálægt þér er orðið, í munni þínum, í hjarta þínu.“ Það er: Orð trúarinnar sem við prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem á hann trúir verður aldrei til vansæmdar. Í þessu er enginn munur á Gyðingum og Grikkjum. Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann því að „hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn“.

En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað nema hann sé sendur? Svo er og ritað: „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða.“

En ekki tóku allir við fagnaðarerindinu. Jesaja segir: „Drottinn, hver trúði því sem við boðuðum?“ Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.


Guðspjall: Matt 18.21-35

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“

Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.



Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.

Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.

Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“


Pistill: Fil 1.3-11

Ég þakka Guði mínum í hvert skipti sem ég hugsa til ykkar og geri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir ykkur öllum vegna samfélags ykkar um fagnaðarerindið frá því þið tókuð við því og allt til þessa. Ég fulltreysti einmitt því að hann, sem byrjaði í ykkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.

Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til ykkar allra. Ég hef ykkur í hjarta mínu og þið eigið öll hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og eins er ég er að verja fagnaðarerindið og sannfæra menn um gildi þess. Guð er mér þess vitni hvernig ég þrái ykkur öll með ástúð Krists Jesú.

Og þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists, auðug að þeim réttlætisávexti sem Jesús Kristur kemur til leiðar Guði til lofs og dýrðar.

Further episodes of Guð-spjall

Further podcasts by Steinunn A Björnsdóttir

Website of Steinunn A Björnsdóttir