Guð-spjall, 18. þáttur: Fæðingarhríðir, forlög og forgengileiki - a podcast by Steinunn A Björnsdóttir

from 2020-11-19T17:32:30

:: ::

Farið er vítt og breytt í hlaðvarpi vikunnar og ýmislegt dregið fram, þar með hugsanleg breyting á frægum versum úr predikaranum, umræða um fæðingarhríðir náttúrunnar og svo auðvitað dóminn - og þar með forlagahyggju og náð. Jólavísan Jólasveinar einn og átta kemur þarna fyrir og ýmislegt fleira. 


Textar síðasta sunnudags kirkjuársins


Lexía: Jes 65.17-19

Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð

og hins fyrra verður ekki minnst framar

og það skal engum í hug koma.

Gleðjist og fagnið ævinlega

yfir því sem ég skapa

því sjá, ég geri Jerúsalem að fögnuði

og íbúa hennar að gleði.

Ég mun gleðjast yfir Jerúsalem

og fagna yfir þjóð minni,

þar mun aldrei framar heyrast grátur og kvein.



Pistill: Róm 8.18-25

Ég lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast. Því að sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber. Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo, í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.

Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. Og ekki það eitt, heldur stynjum við sem eigum frumgróða andans einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama okkar. Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.



Guðspjall: Matt 25.31-46

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.

Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“

Further episodes of Guð-spjall

Further podcasts by Steinunn A Björnsdóttir

Website of Steinunn A Björnsdóttir