Guð-spjall, 25. þáttur: Blindan og blygðunarsemin - a podcast by Steinunn A Björnsdóttir

from 2021-01-15T12:52:20

:: ::

Blindir menn fá sýn, hórkarlar eru ávíttir. Hér er rætt um texta 2. sunnudags eftir þrettánda, annars vegar um kraftaverk og hins vegar um ávítur Páls postula vegna þess að hinir kristnu karlar í Kórintuborg sóttu vændishús. Eins og áður er komið víða við, orðaleikur úr grískunni skírður og enn og aftur rætt um holdið og líkamann, sarx og soma. 


Pistill: 1Kor 6.12-15a, 18-20

Allt er mér leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér. Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn en Guð mun hvort tveggja gera að engu. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.

Guð hefur uppvakið Drottin með mætti sínum og mun á sama hátt uppvekja okkur.

Vitið þið ekki að líkamar ykkar eru limir Krists?

Forðist saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama. Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði keypt. Vegsamið því Guð með líkama ykkar.





Guðspjall: Matt 9.27-31

Þá er Jesús hélt þaðan fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: „Miskunna þú okkur, sonur Davíðs.“

Þegar hann kom heim gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: „Trúið þið að ég geti gert þetta?“ Þeir sögðu: „Já, Drottinn.“

Þá snart hann augu þeirra og mælti: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.“ En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.

Further episodes of Guð-spjall

Further podcasts by Steinunn A Björnsdóttir

Website of Steinunn A Björnsdóttir