53 | Er Biden að vinna? Kosningarnar sögulegu og stjórnartíð Trumps - a podcast by RÚV

from 2020-11-06T14:03

:: ::

Heimskviður vikunnar eru helgaðar nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Þó úrslitin liggi ekki fyrir þegar þátturinn er tekinn upp, er um margt að ræða. Þótt flestir séu sammála um að kosningarnar á þriðjudag séu fordæmalausar rétt eins og síðustu mánuðir má ekki gleyma því að sagan á það til að endurtaka sig. Margir hafa rifjað upp kosningarnar árið 2000 enda er óhætt að segja að þar hafi allt hafi farið í bál og brand líkt og nú. Þá voru kosningarnar mjög tvísýnar og niðurstöðurnar vógu salt allt þar til endurtalning fór fram sem síðan fór fyrir dómstóla. Það var ekki fyrr en að hæstiréttur skarst í leikinn að George Bush var réttkjörinn forseti fram yfir Al Gore. Fólk úr lagateymi Bush á sínum tíma er nú komið í valdamiklar stöður innan stjórnkerfisins og fari það svo að niðurstöður kosninganna á þriðjudag fari í hart sjáum við líklega skuggann af hinum örlagaríku aldamótakosningum. Er Trump búinn að vera að skipuleggja þessa fléttu í tvö ár? Jóhannes Ólafsson leitast við að svara þeirri spurningu. Donald Trump hefur verið einn umdeildasti forseti Bandaríkjanna fyrr og síðar. Það virðist þó ekki hafa komið niður á vinsældum hans ef marka má stuðning við hann í embætti. Ingvar Þór Björnsson flytur í þættinum sinn fyrsta Heimskviðupistil og ræðir við Marc Fisher, ritstjóra hjá The Washington Post, um forsetatíð Donalds Trump sem hefur einkennst af átökum og sundrungu. Fisher segir Trump hafa verið forseta fyrir þann hóp sem kaus hann - en aðra ekki. Hann hafi ekki gert neitt til að sameina þjóðina. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.

Further episodes of Heimskviður

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV