30 ár frá falli Sovétríkjanna, grýla á pólsku og póstkort frá Magnúsi - a podcast by RÚV

from 2021-12-08T11:03

:: ::

Sagnfræðingafélag Íslands boðar í kvöld til fundar í Iðnó um fall Sovétríkjanna og þróunina í Rússlandi nú þegar 30 ár eru frá því að Sovétríkin liðuðust í sundur og heimsmyndin breyttist á svipstundu. Fáir hefðu búist við því þegar Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða árið 1986 að aðeins fimm árum síðar væru Sovétríkin horfin. Og hvað hefur gerst síðan og hvernig er staðan í Rússlandi í dag? Valur Gunnarsson sagnfræðingur, einn frummælenda í kvöld, kom í þáttinn og fræddi okkur um hvað hefur gerst eftir fall Sovétríkjanna. Jólagleði í Garðalundi á Akranesi var fyrst haldin í desember árið 2016 og hefur verið árviss viðburður síðan. Í fyrra þurfti að hugsa hlutina uppá nýtt og var farin sú leið að setja upp litla ævintýraheima í skógræktinni. Á þessum ævintýrastöðum eru skilti með textum og þar verða svokallaðir QR kóðar sem vísa á lesnar sögur og ekki síst á upplestra á kvæðum Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana, jólaköttinn og Grýlu, bæði á íslensku, ensku og nú á pólsku. Nina Slowinska er þýðandi kvæða og texta og pólskir leikarar sjá um lesturinn. Nina kom í þáttinn í dag ásamt Margréti Blöndal sem er ein af höfundum og hugmyndasmiðum Jólagleðinnar í Garðalundi. Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni og kortið í dag hófst á lýsingu á veðri og vindum í Vestmannaeyjum, en þar er vindasamt og úrkomumikið veður flesta daga að sögn Magnúsar. Þaðan var farið út í hinn víðáttumikla geim því eftir hálfan mánuð verður risavöxnum geimsjónauka skotið á loft og honum er ætlað að svara mikilvægum spurningum um samsetningu og eðli alheims. Undir lok kortsins var sagt frá óttanum sem fjölmiðlar hafa skapað vegna kórónuveirufaraldursins. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV