Eyrnasuð, kleinuhringjahagfræði og dreifing bóluefna - a podcast by RÚV

from 2022-02-10T11:03

:: ::

Eyrnasuð, eða tinnitus, er hvers kyns hávaði eða hljóð sem heyrist inni í eyranu eða í höfðinu og stafar ekki frá umhverfinu. Vægt eyrnasuð er mjög algengt fyrirbæri. Næstum allir finna til dæmis fyrir eyrnasuði eftir mikinn, hvellan hávaða eða jafnvel upp úr þurru. Yfirleitt hverfur svo suðið eftir einhvern tíma. Eyrnasuð er ekki sjúkdómur heldur einkenni einhvers sem truflar starfsemi eyrans eða heyrnartaugarinnar. Orsakir geta verið fjölmargar. Sumar eru þekktar, aðrar óþekktar. Áhyggjur, þunglyndi og reiði eru ekki óalgengir fylgifiskar eyrnasuðs. Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar var hjá okkur í þættinum og fræddi okkur um eyrnasuð. Við veltum svo fyrir okkur fyrirbærinu kleinuhringjahagfræði. Auður H. Ingólfsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur skrifaði grein sem birtist á akureyri.net þar sem hún segir að kleinuhringjahagfræði sé uppáhaldshagfræðin hennar og eitt það heitasta í sjálfbærnifræðunum um þessar mundir. En hvað er kleinuhringjahagfræði? Og af hverju skorar Auður á þau sem eru í framboði í sveitastjórnarkosningum á Íslandi í vor að tileinka sér þessa tilteknu hagfræði? Við fengum Auði til að útskýra það fyrir okkur í dag. Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, kom í þáttinn og sagði frá verkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, til að hraða dreifingu og aðgengi að COVID-19 bóluefnum í lág- og millitekjuríkjum. Eins og fréttir greindu frá í vikunni mun Utanríkisráðuneytið verja 250 milljónum króna til að styðja við verkefnið. Birna sagði frá framgangi og mikilvægi þessa verkefnis og svo frá því hversu skelfilegt ástand er enn fyrir börn í Sýrlandi, sérstaklega í norðurhluta landsins. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV