Félagsráðgjafar, Mottumars og Steiney lesandi vikunnar - a podcast by RÚV

from 2022-02-28T11:03

:: ::

Fyrir skemmstu var haldið Félagsráðgjafaþing 2022, í þetta sinn var aðaláherslan lögð á ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna sem tóku gildi í ársbyrjun. Nýju lögin miða að því að tryggja börnum og aðstandendum þeirra snemmtækan og samþættan stuðning þvert á kerfi. Við fengum Steinunni Bergmann, formann Félagsráðgjafafélags Íslands, til að koma í þáttinn og segja okkur frá þessu og hvað hlutverk félagsráðgjafa verður í kjölfar þessara nýju laga og hvernig verður reynt að tryggja öryggi fyrir börn sem búa við erfiðar aðstæður. Ný rannsókn Krabbameinsfélagsins leiddi í ljós að margir karlar sem síðar greindust með krabbamein drógu það að leita til læknis þó þeir fyndu fyrir einkennum sem bentu til vanheilsu. Slagorð Mottumars í ár er?- Þú ert eldri en þú heldur?og byggir á því sem margir karlar geta líklega tekið undir, það að upplifa að þeir séu enn það ungir að þeir þurfi ekki gefa heilsufarinu sérstaklega gaum. Mottumars hefst á morgun og nú eins og áður eru sokkar til sölu til að styðja rannsóknir á krabbameini karla. Þær komu í þáttinn í dag þær Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins og Bergþóra Guðnadóttir, frá Farmers Market, hönnuður mottumarssokkanna í ár. Lesandi vikunnar í þetta sinn var leik- og tónlistarkonan Steiney Skúladóttir. Hún hefur verið að leika í gamanþáttunum Kanarí sem hafa verið á RÚV undanfarnar vikur og þessa dagana stendur hún í ströngu, en hún tekur nú þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins með Reykjavíkurdætrum. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUNNAR HANSSON

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV