Frásagnarlist, húslestur Braga og Bergþóru og Stefán hreindýrabóndi - a podcast by RÚV

from 2021-01-19T11:03

:: ::

Að kunna þá list að segja skemmtilega frá, svo skemmtilega að fólk færi sig fram á sætisbrúnina og hangi á hverju orði sem fellur af vörum þínum, er öfundsverður eiginleiki sem getur gagnast hvar sem er. Tæknin við að segja sögur er námskeið á vegum Endurmenntunar HÍ þar sem fjallað verður meðal annars um frásagnarlist frá mörgum ólíkum hliðum. Hvernig hún nýtist bæði við formlegar og óformlegar aðstæður, á opinberum vettvangi og í góðum félagskap vina og fjölskyldu. Við fengum Andrés Jónsson almannatengil, sem er annar þeirra sem stjórna námskeiðinu, í þáttinn til að segja okkur frá því hvernig á að segja frá.. Borgarbókasafnið í Menningarhúsinu Gerðuberg býður uppá húslestra í vetur og á morgun verða rithöfundarnir Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson með lesturinn. Þau ætla að lesa upp texta sem eru í uppáhaldi hjá þeim og textarnir koma víða að og í þeim er að finna töfra og dulúð. Bergþóra og Bragi Páll eru bæði rithöfundar og eins og segir í kynningartexta: hún er húsmóðir og hann sjómaður. Bergþóra gaf út sína fyrstu skáldsögu í fyrra, Svínshöfuð, sem sló rækilega í gegn og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Bragi Páll gaf einnig út sína fyrstu skáldsögu í fyrra, Austur, sem hefur verið lýst sem harmrænni hrakningasögu, sem þó er drepfyndin. Þau komu í þáttinn í dag. Hreindýrin eru hans eins og sauðféð er bóndans á Íslandi er sagt um Stefán Hrafn Magnússon hreindýrabónda á Grænlandi. Stefán kom í heimsókn á Strandir fyrir stuttu og Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, ræddi við hann um ástæður þess að hann fór í upphafi til Grænlands og settist þar að. UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV