Geðlestin, Dagur heyrnar og Davíð Ólafsson - a podcast by RÚV

from 2022-03-01T11:03

:: ::

Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla sem byggir á þeirri staðreynd, eins og segir á gedlestin.is, að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvindi og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, kom í þáttinn í dag og sagði betur frá Geðlestinni, en hún er einmitt samvinnuverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða Krossins, 1717. Grímur fór einnig yfir sláandi tölur, til dæmis hvað varðar líðan ungs fólks og sjálfsvíg, þar sem þróunin er því miður ekki að fara í rétta átt. Á fimmtudaginn, 3.mars, er alþjóðlegur Dagur heyrnar. Kjörorð dagsins í ár er: Hlustum varlega, heyrum alla ævina! Sjónum er beint að þeirri hættu sem rúmur milljarður fólks um allan heim, ekki síst ungmenni, er í varðandi langvinna hlustun í miklum hávaða. Sem sagt með tónlistarspilurum, á tónleikum, íþróttaviðburðum, á líkamsræktarstöðvum o.s.frv. Með skilaboðum Dags heyrnar 2022 er lögð áherslu á að fyrirbyggja heyrnartap af völdum hávaða með svokallaðri öruggri hlustun. Kristbjörg Gunnarsdóttir, heyrnarfræðingur, kom í þáttinn og sagði frá því hvað er örugg hlustun og hvernig við getum varist heyrnarskaða. Davíð Ólafsson sagnfræðingur hefur varið miklum tíma við rannsóknir á efni Handritadeildar Landsbókasafns. Mikið af handritum þar eru skráð af Sighvati Borgfirðingi sem dvaldi nokkur ár á bænum Klúku í Bjarnarfirði. Kristín okkar Einarsdóttir hitti Davíð og ræddi við hann um Sighvat Borgfirðing og almennt um fjársjóði handritadeildarinnar. UMSJÓN GUNNAR HANSSON

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV