Grasið í garðinum, sumarfrí grunnskólabarna, og Kontóristinn - a podcast by RÚV

from 2021-06-01T11:03

:: ::

Eitt af einkennum sumarsins er lyktin af nýslegnu grasi. Flestum þykir hún afskaplega góð en ekki er eins víst að allir kunni að sinna garðinum sínum almennilega, sem sagt grasfletinum. Þar getur ýmislegt sett strik í reikninginn, eins og til dæmis mosi, fíflar og fleira. Því var ekki úr vegi að fá í þáttinn lærða manneskju, sem titlar sig í símaskránni grasvallatæknifræðing. Hann heitir Bjarni Þór Hannesson og lærði í Skotlandi og Englandi, hefur séð um golfvelli og knattspyrnuvelli og gaf góð ráð til garðeigenda sem viðkoma grasinu. Nýlega skrifaði Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum ? Save the Children á Íslandi, grein í fjölmiðla þar sem hún vekur athygli á ósamræmi í sumarfríum foreldra og grunnskólabarna. Flestir foreldrar fá mest 6 vikur í sumarfrí en börn á grunnskólaaldri eiga hins vegar tvöfalt lengra frí. Barnaheill hvetja stjórnvöld og ekki síst sveitarfélög til að taka til skoðunar að koma á uppbyggilegum úrræðum fyrir börn á yngsta stigi grunnskóla í skólafríum og hvetja jafnframt fyrirtæki og stofnanir að sýna foreldrum skilning þegar hliðra þarf til vegna frídaga barna. Margrét Júlía kom í þáttinn í dag. Við fengum annan pistilinn í nýrri röð af Kontóristanum frá Steinari Þór Ólafssyni. Í þetta sinn veltir hann fyrir sér mötuneyti og mat í fyrirtækjum, sem spila auðvitað mikilvægt hlutverk í starfsánægju og afköstum og geta jafnframt dregið úr veikindum og fjarveru starfsmanna. En ætli mötuneyti spili stærra hlutverk en bara að gefa svöngu starfsfólki að borða? Þetta skoðaði Steinar Þór kontórsti í pistli dagsins, þar sem hann talaði meðal annars við Olgu Eir Þórarinsdóttur, hjúkrunarfræðing hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og Alexöndru Kjeld, umhverfisverkfræðing hjá Eflu verkfræðistofu UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV