Leikhús fyrir þau yngstu, heimilaskipti og Gísli lesandi - a podcast by RÚV

from 2021-10-11T11:03

:: ::

Leikhópurinn Miðnætti er barnafjölskyldum að góðu kunnur enda hefur hann á síðustu árum sett upp fjölmargar metnaðarfullar og stórskemmtilegar sýningar fyrir börn á öllum aldri. Nú er Miðnætti mætt í Borgarleikhúsið með undurfallega sýningu fyrir allra yngstu leikhúsgestina. Tjaldið er upplifunarleikhús fyrir börn frá þriggja mánaða til þriggja ára og foreldra þeirra og forráðamenn. Agnes Wild kom í þáttinn en hún er ein af höfundum verksins og leikstjóri. G.Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar hefur áralanga reynslu af heimilaskiptum erlendis í gegnum samtökin Intervac. Hann hefur m.a. dvalið á þennan hátt á heimilum í Frakklandi, Þýskalandi og Argentínu. Hann segir heimilaskipti hafa fleiri kosti en að spara útgjöld þar sem allt fríið verði mun afslappaðra. Þar að auki hefur hann eignast vini víða um heiminn í gegnum heimilaskiptin, sem hann telur mun persónulegri heldur en hótelgisting. Við heyrðum í Pétri í þættinum í dag. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Gísli Helgason sem kallar sig gjarnan blokkflautuskáld. Hann hefur starfað við tónlist, dagskrárgerð í útvarpi, er frumkvöðull í útgáfu hljóðbóka á almennum markaði og annar höfunda að stofnun Blindrabókasafns, sem nú er Hljóðbókasafn Íslands. Við fengum að vita hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft sérstök áhrif á hann í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV