Meydómur Hlínar, Stelpur filma og Sirrý lesandinn - a podcast by RÚV

from 2021-11-22T11:03

:: ::

Hlín Agnarsdóttir, leikstjóri, leikskáld og rithöfundur kom í þáttinn og sagði frá nýrri bók sinni Meydómi, sannsögu. Bókin er bréf fullorðinnar dóttur til látins föður hennar og jafnframt bréf til ungu meyjarinnar sem hún eitt sinn var. Hlín segir að bókin fjalli meðal annars um ofbeldi gegn börnum, vaknandi kynhvöt og uppreisn gegn foreldrum sem höfðu lítinn sem engan áhuga á eigin börnum. Hún tileinkar bókina systkinum sínum fimm. Við fengum Hlín til að segja okkur frekar frá þessari sögu sem byggir á minningum úr hennar frá sakleysi bernskunnar til uppreisnar unglingsáranna þegar meydómi hennar lýkur. Flestir þekkja kvikmyndahátíðina RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík sem hefur verið haldin síðan 2004. Barnadagskrá RIFF hefur verið haldin í grunnskólum landsins síðustu ár en um er að ræða dagskrá með stuttmyndum sem hæfa hverjum aldursflokki fyrir sig. Stuðningsefni fyrir kennara fylgir til þess að ræða við nemendur og nota við kennslu. Við forvitnuðumst um þessa dagskrá og einnig um námskeið í kvikmyndagerð sem haldin verða á landsbyggðinni ætluð stúlkum og kynsegin einstaklingum. Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, sagði frá. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Sirrý Arnardóttir, sjónvarpskona og rithöfundur. Hún var að gefa út nýja barnabók, Saga finnur fjársjóð - og bætir heiminn í leiðinni. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og svo hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Further episodes of Mannlegi þátturinn

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV