13. okt. -Heilabrot, slysavarnir, slúður, atvinna fatlaðra og Valdimar - a podcast by RÚV

from 2021-10-13T06:50

:: ::

Helgina 22.-24. október nk. verður boðið til heilmikillar skemmtunar á Hótel Hamri við Borgarnes undir heitinu Heilabrot á Hamri. Þar verður boðið upp á alls kyns spurningaleiki, krossgátur, skrafl og ratleik svo eitthvað sé nefnt. Allsherjar nördagleði svo vísað sé í kynningu skipuleggjenda. Ævar Örn Jósepsson fréttamaður, rithöfundur og sitthvað fleira veit allt um málið og hann kíkti við hjá okkur og sagði okkur meira. Landsbjörg heldur ráðstefnuna Slysavarnir 2021 á föstudag og laugardag og þar verða margvísleg málefni um slysavarnir og öryggismál krufin. Við fengum til okkar sérfræðing á þessu sviði, Jónas Guðmundsson, sem starfar hjá Landsbjörg og kemur að ráðstefnunni, til að fara yfir stöðu mála í fjölbreyttum málaflokki slysavarna. Slúður er eitthvað sem við þekkjum flest og vitum að það getur haft margs konar afleiðingar. Sumir eru þó áhugasamari um slúður en aðrir og það á við um Grétu Bergrúnu Jóhannesdóttur, kynjafræðing og doktorsnema við Háskólann á Akureyri. Hún hefur rannsakað samfélagsleg áhrif slúðurs á ungar konur í sjávarþorpum, meðal annars til að skoða hvort og þá hvernig slúður hefur áhrif á búferlaflutninga og búsetuánægju. Við slógum á þráðinn til Grétu Bergrúnar, sem mun einmitt í dag kynna rannsóknir sínar á málþingi í Háskólanum á Akureyri. Um síðustu helgi fór fram ráðstefna um atvinnumál fatlaðra undir heitinu Göngum í takt. Þar kom fram að víða er pottur brotinn í þeim málum og úrbóta og framfara er þörf sem og þegar kemur að menntunartækifærum fatlaðra. Sara Dögg Svanhildardóttir verkefnastjóri hjá Þroskahjálp brennur fyrir þessi málefni og hún kom til okkar og fór yfir stöðuna. Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður er með mörg járn í eldinum þessa dagana. Hann er nýbakaður faðir, stofnaði hljómsveitina Lón, skipuleggur margfrestaða afmælistónleika hljómsveitarinnar Valdimars og nú ætlar hann að henda sér inn á jólatónleikamarkaðinn alls óhræddur. Við fengum Valdimar í heimsókn og spjölluðum um lífið og listina. Tónlist: Krummi - Frozen teardrops. Bríet - Sólblóm. Nik Kershaw - The riddle. Klassart - Landamæri. Svavar Knútur og Irish Mythen - Hope and fortune. Big Country - Look away. Lón - Earthquake. HAIM - The steps. Lizzo og Cardi B. - Rumors.

Further episodes of Morgunútvarpið

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV