14. okt. - Hornið, Spánarhús, ráðherra, fjarnám og Hringfarinn - a podcast by RÚV

from 2021-10-14T06:50

:: ::

Veitingastaðurinn Hornið hefur verið starfræktur í Reykjavík frá árinu 1979 og var sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi, þ.e. veitingastaður með ítölsku ívafi þar sem áherslan er á pizzur. Staðurinn hefur verið rekinn á sömu kennitölu frá upphafi og rekinn af sömu fjölskyldunni. Jakob H. Magnússon veitingamaður og sonur hans Hlynur Jakobsson komu til okkar í morgunkaffi og sögðu okkur frá áratugum í veitingarekstri og nýrri bók sem nú kemur út um sögu Hornsins. Fjölmargir Íslendingar eiga fasteignir á Spáni og eru ýmist alfluttir þangað eða hafa þar vetursetu. En hvað þarf að hafa í huga varðandi fasteignakaup í erlendu landi? Hvaða ber að varast? Dæmi eru um að Íslendingar hafi tapað þúsundum og jafnvel hundruð þúsunda evra vegna þess að samningagerð var áfátt. Við hringdum til Spánar og heyrðum í Burkna Aðalsteinssyni sem er framkvæmdarstjóri Spánarhúsa og þekkir þessi mál vel. Mjög afgerandi stuðningur við Katrínu Jakobsdóttur kemur fram í nýrri könnun Maskínu þar sem fólk var spurt hvern það vildi helst sjá sem forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn. Þar fær Katrín rúm 57 prósent, sem er töluverð aukning frá fyrri könnunum, á meðan næsti maður á blaði, Sigurður Ingi Jóhannson, er rétt undir tíu prósentum. Hvað þýðir þetta og hefur það eitthvert gildi inn í stjórnarmyndunarviðræður sem nú standa yfir? Við slógum á þráðinn til Stefaníu Óskarsdóttur dósents í stjórnmálafræði og spáum í spilin. Háskóli Íslands hefur verið gagnrýndur undanfarið fyrir lítið framboð á fjarnámi. Þar hefur verið spurt hvort Háskólinn sé eingöngu háskóli höfuðborgarbúa og bent á að takmörkun fjarnáms sé ekki í takt við tímann. Steinunn Gestsdóttir aðstoðarrektor HÍ kom til okkar og gerði grein fyrir stöðu mála þeirra megin. Margir muna eftir sjónvarpsþáttunum um Hringfarann, Kristján Gíslason, sem tók sig til og ferðaðist í kringum heiminn á mótorhjóli og lenti í alls kyns ævintýrum. Hann var hvergi nærri hættur að þeim leiðangri loknum og hjólaði víða um heim með konu sinni, en lagði svo einn upp í leiðangur um Afríku 2019. Það ævintýri hefur hann skrásett í bókinni Andlit Afríku, sem er full af mannlífsmyndum og sögum af enn einni ævintýraförinni. Kristján kom til okkar í spjall og sagði okkur af leiðöngrum sínum og við spurðum hann að sjálfsögðu í leiðinni hvert förinni er heitið næst. Tónlist: Ásgeir Trausti - Heimförin. Eddie Vedder - Long way. Nýdönsk - Apaspil. Coldplay og BTS - My universe. Björk - Kata rokkar. E.L.O. - All over the world. Hipsumhaps - Meikaða. Toto - Africa.

Further episodes of Morgunútvarpið

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV