23. sept. - Bálfarafélag, málfar, Dýrið, sóttvarnir og missir - a podcast by RÚV

from 2021-09-23T06:50

:: ::

Til stendur að endurvekja hið 87 ára gamla Bálfarafélag Íslands til að styðja við opnun óháðrar og umhverfisvænnar bálstofu sem fyrirhugað er að rísi í Garðabæ. Aðeins ein bálstofa er í landinu en Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma reka hana í Fossvogi. Af þessu tilefni verður kynningarfundur í dag, en mikilvægt er að fá aðkomu almennings og stuðning við verkefnið segja aðstandendur. Við fengum Sigríði Bylgju Sigurjónsdóttur formann félagsins til okkar. Við ræðum íslenskt mál við Önnu Sigríði Þráinsdóttur málfarsráðunaut í vikulegu málfarsspjalli okkar og þar verða kosningar okkur hugleiknar. Íslenska kvikmyndin Dýrið verður frumsýnd á morgun hér á landi, en hún hefur þegar vakið mikla athygli og hlaut m.a. frumleikaverðlaunin svokölluðu á kvikmyndahátíðinn í Cannes. Myndin var forsýnd í fyrrakvöld og við fengum leikstjórann Valdimar Jóhannsson til okkar og heyrðum af viðtökunum og forvitnuðumst um þessa áhugaverðu kvikmynd sem ku vera einhvers konar blanda af sveitarómantík, hryllingi og þjóðsagnaminnum.... eða hvað? Alþingiskosningar eru fram undan um helgina og flokkarnir keppast við að bjóða kjósendur velkomna á kosningaskrifstofur sínar. Svo eru það kosningavökurnar, jafnt á vegum flokkanna sem annarra. Svo eru fjölmennir íþróttaviðburðir og fögnuðir á dagskrá líka. Við fengum Víði Reynisson yfirlögregluþjón hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra til að fara yfir núgildandi sóttvarnarreglur með okkur og gefa góð ráð um ábyrga hegðun í þessu samhengi. Hvað má og hvað má ekki í kosninga- og knattspyrnugleði helgarinnar? Fæstir fara í gegnum lífið án þess að upplifa sorg af einhverju tagi. Við missum fólk, söknum og syrgjum. Sjónvarpsþættirnir Missir hefjast í Sjónvarpi Símans í kvöld, en þar hittir Freyr Eyjólfsson fyrir fólk sem hefur gengið í gegnum sorg og missi. Lært að lifa með sorginni, unnið sig í gegnum áfallið og eignast gott og hamingjusamt líf. Þær Eva Dís Þórðardóttir, hugmyndasmiður þáttanna, og Ína Lóa Sigurðardóttir frá Sorgarmiðstöðinni komu til okkar og sögðu okkur meira. Tónlist: Sváfnir Sig - Fer sem fer. Dire Straits - Ticket to heaven. Rakel, Ceasetone og JóiPé - Ég var að spá. The Weeknd - Take my breath. Grafík - Presley. Lana Del Ray - Tulsa Jesus Freak. Joe Jackson - Steppin out. Krummi - Frozen teardrops. Lizzo og Cardi B. - Rumors.

Further episodes of Morgunútvarpið

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV