24. jan. - Ljósmynd, íslenskan, orkumál, Reynir Tr., glens og EM - a podcast by RÚV

from 2022-01-24T06:50

:: ::

Þriðja elsta þekkta ljósmyndin frá Íslandi fannst á dögunum þegar opnaður var nýr vefur með hluta af ljósmyndasafni dönsku konungsfjölskyldunnar. Myndin, sem sýnir norðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík, hefur sögulegt gildi en hún er talin tekin af Frakkanum Louis Rousseau í leiðangri Napóleons prins um Norðurlönd sumarið 1856. Við heyrðum í Ingu Láru Baldvinsdóttur, sagnfræðingi og fyrrum sviðsstjóra ljósmyndadeildar Þjóðminjasafns Íslands, um myndina. Lestrarkeppni grunnskólanna er í fullum gangi og er hluti af þeim verkefnum sem eru í gangi til að efla íslenskuna. Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála fer með málaflokkinn og við ræddum við hana um stöðu íslenskunnar og áherslur í baráttunni við að vernda tungumálið okkar í sífellt alþjóðlegri heimi. Orkubú Vestfjarða býst við að þurfa að brenna olíu í allt að þrjá mánuði til að tryggja húsakyndingu eftir að Landsvirkjun tilkynnti að hún afhendi nú enga raforku til kaupenda að skerðanlengri orku vegna orkuskorts. Við heyrðum í Elíasi Jónatanssyni, forstjóra Orkubús Vestfjarða, um málið og framtíðarsýn þeirra í orkumálum. Reynir Traustason fréttastjóri Mannlífs hefur staðið í sannkallaðri orrahríð síðan áður en brotist var inn á skrifstofur fjölmiðilsins aðfaranótt föstudags og atlaga gerð að því að leggja miðilinn niður. Róbert Wessmann forstjóri Alvogen sendi frá sér yfirlýsingu um helgina þar sem hann segist hvergi hafa komið nærri innbrotinu en Reynir lítur þó svo á að þeir eigi í einhverskonar stríði. Reynir var gestur okkar. Drulluleiðist þér í sóttkví eða einangrun? Að þessu spyrja þær Ebba Sig uppistandari og Róberta Michelle Hall húllumhæ húllastelpan. Þær taka að sér að skemmta fólki við alls kyns aðstæður og í öllum veðrum og við fengum þær í heimsókn til að segja okkur meira. Óhætt er að segja að íslenska karlalandsliðið í handbolta hafi fyllt á hamingjuhormón þjóðarinnar sl. laugardag með alveg hreint stórkostlegum sigri á Ólympíumeisturum Frakka. Við heyrðum í okkar manni í Búdapest, sem líkt og níu leikmenn, varð fyrir barðinu á veirufjandanum, og lýsti Frakkaleiknum úr einangrun í hótelherbergi sínu. Við tókum EM stöðuna hjá Einar Erni Jónssyni. Tónlist: Jóhann G. Jóhannsson - Dont try to fool me. Amy Winehouse - Back to black. Júlí Heiðar - Ástin heldur vöku. Robert Plant og Alison Krauss - Cant let go. Erla og Gréta - Ég á heiminn með þér. Sigrún Stella - Baby blue. Ásgeir Trausti - Sunday drive. Post Malone - Only wanna be with you. Eddie Vedder - Long way. Björk - Army of me.

Further episodes of Morgunútvarpið

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV