24. sept. - Kraftlyftingar, miðlalæsi, kosningar, fréttaspjall, Ásta - a podcast by RÚV

from 2021-09-24T06:50

:: ::

Kraftlyftingakonan Elsa Pálsdóttir varð í gær heimsmeistari í klassískum kraftlyftingum í undir 76 kílóa flokki kvenna yfir 60 ára. Hún gerði sér einnig lítið fyrir og setti þrjú heimsmet á mótinu, sem haldið er í Halmstad í Svíþjóð. Við slógum á þráðinn til Elsu út til Svíþjóðar og heyrðum meira um þennan magnaða árangur. Fjölmiðlanefnd stendur fyrir árvekniátakinu Stoppa, hugsa, athuga, nú í aðdraganda kosninga þar sem fólk er hvatt til að beita gagnrýnni hugsun þegar greina þarf mismunandi upplýsingar sem verða á vegi fólks í aðdraganda kosninga. Reikna má með að margir séu að kynna sér málin á lokasprettinum fyrir kosningar og við fengum Skúla B. Geirdal verkefnastjóra hjá Fjölmiðlanefnd til að ræða upplýsingaóreiðu, miðlalæsi og fleira sem skiptir máli í þessu samhengi við okkur. Eins og flestir vita er kosningadagur á morgun og þá er að mörgu að hyggja. Yfirkjörstjórnir í öllum kjördæmum hafa haft í nógu að snúast við að undirbúa allt eins vel og mögulegt er, svo öll kjörgögn skili sér á talningarstað. Við heyrðum í Þóri Haraldssyni, formanni yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi og athuguðum hvernig undirbúningur gengur hjá þeim. Fréttir vikunnar voru líka litaðar af komandi kosningum en gestir okkar að þessu sinni voru þau Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Vikunnar og Haukur Holm fréttamaður á RÚV. Við enduðum svo vikuna á menningarlegum nótum þegar Ólafur Egilsson kom til okkar og sagði okkur frá leiksýningunni Ástu, en Ásta Sigurðardóttir var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndlist hennar og ritverk vöktu aðdáun en líka hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs þessarar hæfileikaríku en breysku konu og höfundarverks hennar óljós segir í kynningu. Við ræddum Ástu. Tónlist: Ellen Kristjánsdóttir og John Grant - Veldu stjörnu. U2 - Angel of Harlem. Hjálmar - Yfir hafið. Leaves - Catch. Flott - Þegar ég verð 36. Matthildur Hafliðadóttir - Perluskel.

Further episodes of Morgunútvarpið

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV