8. des - Grímsey, pálmatré, KSÍ, Gufuá og Þýskaland - a podcast by RÚV

from 2021-12-08T06:50

:: ::

Síðan Miðgarðakirkja brann í Grímsey upp úr miðjum september hefur verið yfirstandandi söfnun fyrir byggingu nýrrar kirkju en ljóst er að talsverður tími er í að hún verði endurbyggð - og jólamessan verður því með óhefðbundnu sniði. Við ræddum við Önnu Maríu Sigvaldadóttur, sem er í sóknarnefndinni. Svikapóstum hefur fjölgað mikið undanfarið og margir þeirra sendir í nafni Póstsins þar sem viðtakendur eru látnir vita af sendingu sem greiða þarf gjöld af. Ari Kristinn Jónsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins AwareGO kom til okkar og sagði okkur af átaki þeirra og Póstsins gegn slíkum svikasendingum. Í gær var greint frá því að heildarkostnaður vegna undirbúnings og uppsetningar pálmatrés í Vogabyggð nemi 8,9 milljónum króna. Við ræddum við Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúa og formann menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar, um þetta umdeilda útilistaverk. Vitneskja var innan KSÍ um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem störfuðu fyrir sambandið hefðu beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á síðustu 11 árum, samkvæmt niðurstöðu skýrslu úttektarnefndar á vegum ÍSÍ sem birt var í gær. Við ræddum við Vöndu Sigurgeirsdóttur, formann KSÍ. Á Gufuá í Borgarfirði búa þau Benedikt Líndal, tamningameistari, reiðkennari og hrossabóndi og Sigríður Ævarsdóttir hómópati, alþýðulistakona og jarðarmóðir eins og hún kallar sig. Á staðnum er rekin fjölbreytt starfsemi, m.a. boðið upp á göngutúra með geitum. Nú hafa þau hjónin skrifað saman bókina Tölum um hesta, sem er óhefðbundin bók um hesta þar sem fræðsla, sögur, ljóð og myndlist fléttast saman. Við hringdum að Gufuá og heyrðum í Benedikt. Stjórnvöld í Þýskalandi ákváðu í lok síðustu viku að herða sóttvarnir til muna til að vinna bug á fjórðu bylgju COVID-19 farsóttarinnar. Við heyrðum í Eiríki Ragnarssyni sem býr í Hessen um stöðu faraldursins þar í landi, en einnig um kanslaraskipti. Tónlist: Baggalútur - Ég á það skilið. Ellý Vilhjálms - Það heyrast jólabjöllur. Mariah Carey - Christmas, baby please come home. KK - Lucky one. Jóhanna Guðrún - Löngu liðnir dagar. Eartha Kitt - Santa baby. Sigurður og Sigríður - Það eru jól.

Further episodes of Morgunútvarpið

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV