Strákar í skólakerfinu, þingmaður lengst allra og veðurfar - a podcast by RÚV

from 2021-10-21T06:50

:: ::

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Vilborg Einarsdóttir, meðstofandi Mentors og framkvæmdastjóri Bravo Earth, ræddu um strákana í skólakerfinu. Tveir af hverjum þremur nemendum Háskóla Íslands eru stelpur og Jón Atli segir mikilvægt að rétta hlutfallið af. Vilborg segir vandamálið ekki vera fjölda stúlkna í háskólum heldur hversu fáir drengir fara í háskólanám. Því í háskólum er brotthvarf kynjanna svipað á meðan yfir 30% drengja hættir í námi á framhaldsskólastigi. Vilborg segir að það sé áhyggjuefni hversu hátt hlutfall drengja getur ekki lesið sér til gagns og spurning um hvort laga þurfi skólakerfið betur að drengjum en nú er. Pétur Ottesen sat á þingi í 42 ár og 250 daga. Farið var yfir þingkosningarnar 1916 þegar Pétur var kjörinn fyrst á þing og eins mál sem hann fór fyrir á Alþingi. Viðtal Stefáns Jónssonar útvarpsmanns við Pétur frá 1. desember 1968, þegar hálf öld var liðin síðan Íslendingar öðluðust fullveldi, var leikið í þætti dagsins. Pétur lést skömmu síðar, eða 16. desember, áttræður að aldri. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur kom í þáttinn og rætt um árstíðarskiptin, fyrsti vetrardagur er á laugardaginn en síðasti sumardagur var í gær. Nú eru því veturnætur í tvo sólarhringa. Sumarið var hlýtt og það rigndi mikið í september. Á næstunni má búast við því að það verði ágætt veður og lægðirnar færri en oft áður. Einar ræddi loftslagsmálin en í byrjun nóvember fer fram loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Skotlandi. Ísland fer stefnulaust þangað og það veldur ekki bara Einari vonbrigðum heldur einnig Halldóri Þorgeirssyni formanni Loftslagsráðs. Rætt var við Halldór í Speglinum í gærkvöldi. Tónlist: Ófeigur með Geirfuglunum Umsjón: Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir.

Further episodes of Morgunvaktin

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV