Marianne Faithfull og lög um lífið og söknuð - a podcast by RÚV

from 2019-01-27T16:05

:: ::

Marianne Faithfull sem er 72 ára gömul fær mesta plássið í Rokklandi vikunnar. Hún sendi frá sér plötu í nóvember, fína plötu sem ýmsum finnst ein af bestu plötum ársins. Platan sem heitir Negatice Capability er yfirmáta einlæg og mannleg og dálítið sorgleg. Það flýtur í gegnum plötuna að Marianne hefur verið að missa talsvert af góðum vinum yfir til dauðans á undanförnum árum. Við heyrum viðtal við Marianne sem kollegi minn og vinur hjá EBU tók við Marianne í París þegar platan kom út og lög af plötunni. Við heyrum líka frá tónleikum Marianne á Broadway í Reykjavík árið 2004, Rás 2 tók tónleikana hennar þá upp. Hún er ekki sérlega góð til heilsunnar, hún fór illa með sig um langt skeið og eflasust tekur það sinn toll þegar fólk er komið á hennar aldur. Hún gengur við staf og er hásari en nokkru sinin fyrr, en það kemur þó ekki í veg fyrir að hún syngi eins og engill, hás og raddhrjúfur engill. Það eru ýmsir góðir gestir á þessari nýju plötu hennar eins og Ed Harcourt, Nick Cave og Mark Lenagan og upptökustjórar plötunar eru galdra-fiðluleikarinn úr Bad Seeds bandi Nick Cave, Warren Ellis, og Rob Ellis sem er best þekktur fyrir störf sín með Pj Harvey. Negative Capability er tuttugasta og fyrsta plata Marianne Faithful og fyrsta platan hennar í fjögur ár. Þetta er einlæg plata full af trega, eftirsjá og dauða en Marianne er komin á þann aldur að vinir hennar hafa verið að falla frá einn af öðrum og hún syngur um einmanaleika á plötunni og missi. Lögin eru flest ný eftir hana í samstarfi við gestina, Nick Cave, Mark Lanegan og Ed Harcourt, en svo eru þarna líka tvö lög sem hún heimsækir í annað og eitt í þriðja sinn. It´s all over now eftir Bob Dylan er þarna en hún gaf það áður út 1985. Witches song sem er á plötunni Broken English sem kom út 1979 er þarna líka og As tears go by, gamla Stóns lagið eftir Jagger og Richard sem startaði ferli Marianne þegar hún var 17 ára gömul árið 1964. Hún tók það upp aftur þegar hún var fertug 1987 á plötuna Strange Weather og enn og aftur núna. Og svo er eitt gamalt Pretty things lag líka sem heitir Loneliest person, kom út með Pretty Things 1968 á plötunni S.F. Sorrow. Við heyrum líka í þættinum nýja músík frá td. Hozier, Vampire Weekend, Dido, Florence and the Machine, Bryan Adams og Ryan Adams.

Further episodes of Rokkland

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV